Tuesday, April 5, 2011

Góðan og blessaðan daginn. Nú er sko langt síðan síðast!

Fallegt í Hoi An að kvöldi til
Síðasta blogg endaði þannig að við vorum á leið til Hoi An, sem er ljúfur og huggulegur bær í Víetnam. Þangað fórum við með svefnrútu þar sem við vorum dauðhræddar megnið af ferðinni enda umferðin í asíu ekkert grín eins og við höfum minnst á nokkrum sinnum og ekki er maður öruggari þegar vegirnir eru rennandi blautir, úti niðdimm nótt og stærðarinnar trukkar lagðir hér og þar í vegaköntum. En við komumst þó kátar á leiðarenda, eins og venjulega.

Í Hoi An eyddum við nokkrum dögum og þá aðallega í heimsóknum hjá Tea, klæðskeranum okkar eða hjá stelpunum í 9, sem sáu um að búa til sérsaumuðu skóna okkar. Held að það að láta sauma á sig skó og föt sé nokkuð sem við Bylgja gætum vel vanist. Við stóðum okkur amk mjög vel í þessari frumfraun okkar í greininni. Svo vel að við neyddumst til að kaupa okkur nýjar töskur til að koma öllum herlegheitunum fyrir. Nokkuð mikill prinsessu bragur yfir dvöl okkar þarna. Við kíktum nú samt líka aðeins á ströndina, fórum í strandpartý og hjólatúra, borðuðum talsvert mikið af Cao lu og nutum lífsins í þessum fallega bæ sem Hoi An er.

Komnar til Halong Bay
Næst lá leið okkar til Hanoi. Við ákváðum að fljúga þangað. Með því styttum við ferðalagið úr um það bil sólarhrings rútuferð, með stoppum, niður í klukkustundar langt flug. Ekki svo slæmt það. Þegar þarna var komið vorum við farnar að ferðast í samfloti með vinum okkar frá Kanada og Svíþjóð. Það er alveg ótrúlega skemmtilegt hvað maður er alltaf að rekast á sama fólkið á svona ferðalagi, en stráknum frá Kanada kynntumst við upphaflega í Laos og höfðum eytt talsverðum tíma með honum þar. Það voru því virkilega ánægjulegir endurfundir sem við áttum í Hoi An þegar við rákumst á hann á götu úti :)

Þegar við lentum í Hanoi var fyrsta verk okkar þar að bóka okkur ferð til Halong Bay. Vorum ekki komin út af flugvellinum þegar við vorum komin með far með lúxus taxa inní miðbæ, hótelgistingu og ferð með gistingu í Halong Bay. Ekki svo slæmt. 

Silja, Bylgja, Daniel & Dan í Halong Bay
Snemma næsta morgun vorum við lögð af stað til Halong Bay. Þar eyddum við tveimur dögum og einni nóttu á glæsilegum báti. Fengum ofsalega fína káetu sem var bara eins og fínasta hótelherbergi, borðuðum allskyns gómsætan mat, kynntumst nýju og skemmtilegu fólki, sungum í karaoke með áhöfninni, lékum okkur á Kajak (frekar stressaðar), skoðuðum náttúruundur og höfðum það fáránlega gott. Mikið leið okkur vel þarna á sjó úti. Dásamleg náttúrufegurð, góður matur og frábær félagsskapur. Það er ekki hægt að biðja um mikið meira :) 

Halong Bay
Bylgja skipstjóri á Halong Bay
Komum svo aftur til Hanoi – röltum um borgina, kvöddum strákana og fórum snemma í háttinn enda áttum við flug til Bangkok snemma næsta morgun.

Flugið sem var 2 tímar gekk vel og ekki löngu seinna vorum við komnar í Siam verslunarmiðstöðina ;) haha aaaðeins að bæta í töskurnar. Röltum svo um Khao San – Backpackers street áður en við héldum í háttinn – glaðar í bragði yfir að vera komnar aftur til Thailands.

Planið var að eyða 4 dögum í Bangkok áður en við myndum halda til London. Þessi plön breyttust heldur betur því morgunin eftir vaknaði ég svoleiðis fárveik að það var ekkert annað í stöðunni en að þjóta beint á næsta sjúkrahús. Það gerðum við og næstu 5 dögum eyddi ég á Bumrungrad sjúkrahúsinu í Bangkok. 

Við stöllur höfum ekki verið neitt sérstaklega duglegar við að blogga um hluti sem okkur finnst ekki skemmtilegir eða áhugaverðir, enda kannski engin ástæða til, og þar af leiðandi höfum við lítið komið inná veikindin sem hafa hrjáð okkur og þá aðallega mig á ferðalaginu. Málið er að síðan í Laos hef ég verið að berjast við einhver veikindi í maganum. Ekkert sem ég lét skemma neitt alvarlega fyrir mér samt. Einhverjir dagar urðu að engu þar sem ég lá eins og auli en aðallega voru þetta óþægindi sem vissulega hefði verið betra að vera laus við en þó ekkert sem ég gat ekki harkað af mér. Svona er maður mikill harðjaxl ;)
Ég kíkti þó til læknis í Víetnam sem greindi mig með sníkjudýr í maganum og gaf mér lyf við því sem ég tók samviskusamlega í 10 daga. Um 15 dögum seinna var ég þó engu betri og sendi manninum tölvupóst. Svar fékk ég nokkrum dögum síðar þar sem hann baðst afsökunar á því að hafa ekki haft samband en blóðprufan og sýnin sem hann tók höfðu ekki skilað neinu um hvað væri að hrjá mig. Hann stakk upp á því að ég færi til læknis ef ég yrði ekki betri fljótlega. Takk fyrir það vinur. Þarna var ég búin að vera veik, af og á, í um það bil 4 vikur.

Ég ákvað þarna að harka bara af mér þangað til ég kæmi heim enda stutt í heimkomu og þar sem ég hafði lifað með þessu þetta lengi gæti ég alveg gert það örlítið lengur.

Aldeilis ekki. Eftir allskyns rannsóknir, myndatökur, prufur og sýni var ég greind með mikla bakteríu/veiru sýkingu og lá næstu daga með næringu í æð í bland við lyfjakokteil sem varð til þess að mér fór smátt og smátt að líða betur.

Ég þakka bara almættinu fyrir að þetta gerðist í Thailandi en ekki einhvers staðar annars staðar því ég er ekki viss um að ég hefði fengið eins góða meðhöndlun í hinum löndunum sem við heimsóttum. Kannski er það fáfræði í mér, ég veit það ekki, en það sem ég veit er að Bumrungrad sjúkrahúsið er á við 5 stjörnu hótel í aðstöðu og starfsfólkið þar er einstaklega vinalegt.

Mest verð ég þó að þakka henni Bylgju minni fyrir að hafa verið við hlið mér sem klettur allan tímann! Á meðan ég var sárkvalin og síðan út úr heiminum lyfjuð sá hún um að hringja óteljandi símtöl heim og í tryggingarnar til að hafa okkar mál á hreinu. Hún talaði við hjúkurnarfólk, lækninn, skrifstofufólk, flutti farangurinn okkar og já bara hélt öllu gangandi þessa daga sem ég tók í að láta mér batna. Þetta hefur vafalaust ekki verið auðvelt eða skemmtilegt. Sérstaklega ekki í ljósi þess að allir dagarnir okkar í Bangkok urðu að engu og dagarnir 4 sem við ætluðum að njóta í London urðu að einum sólarhring.
Ég vona bara að hún viti hvað ég mat þess mikils að hafa hana þarna með mér, því það var ekkert sjálfsagt að hún fengi að vera þarna áfram því tryggingarnar voru ekkert á því að samþykkja hana sem minn nánasta aðstandanda í byrjun – en stelpan stóð föst á sínu og fékk því svo framgengt.

Svo TAKK innilega elsku bestasta Bylgja mín :* Þú ert mikill gullmoli sem ég er heppin að eiga í lífi mínu.

En jæja já. Á endanum var ég útskrifuð „ferðafær“ og við héldum af stað til London. Erfiðar flugferðir verð ég að viðurkenna, enda ég ekki orðin heil heilsu ennþá en eitthvað hefur Evrópu loftið gert mér gott því þegar ég vaknaði í London var ég mun hressari en ég hafði verið lengi og við Bylgja eyddum deginum á Oxford Street þar sem við versluðum frá okkur allt vit, nutum góða veðursins og plönuðum næstu heimsókn okkar til þessarar höfuðborgar Englands ;)

Gullmolinn minn á Oxford Street :)
Um kvöldið vorum við komnar aftur á Heathrow – spenntari en lítil börn á jólunum yfir því að vera á leiðinni heim. Í flugvélinni flissuðum við þegar flugfreyjan bauð okkur góða kvöldið  á íslensku og svo skellihlógum við yfir Stellu í Orlofi megnið af ferðinni.

Lentum í Keflavík þar sem jólasnjór tók á móti okkur. Ekki alveg að ganga við sandalana mína en flíspeysan bjargaði þessu fyrir horn.

Bylgja kom óvænt heim í frænkupartý og voru fagnaðarfundirnir miklir. Allir í skýjunum yfir að fá stelpuna sína heim – enda var ekki von á henni heim fyrr en „bara einhvern tímann“ svo þetta var mikil og óvænt gleðistund :)

Sjálf eyddi ég kvöldinu í að knúsa vel valda einstaklinga og að máta allt nýja dótið mitt – yfir mig hamingjusöm yfir því að vera komin heim í fallega fallega Hafnarfjörðinn
- Að minnsta kosti þangað til næst ;)

Ég held ég láti þetta duga að sinni og vil um leið hvetja ALLA til að byrja að safna fyrir svona ferð því þetta er vafalaust það besta og skemmtilegasta sem ég hef gert og það geta þetta ALLIR – sama á hvaða aldri fólk er :)

Takk allir fyrir að lesa!!

Knús

- Silja Margrét 

3 comments:

  1. High five fyrir góða lokafærslu! Takk fyrir hlý orð í minn garð, þú ert líka gullmolinn minn og ég myndi gera þetta hundrað sinnum fyrir þig aftur! Vona nú að það komi samt ekki til þess, leiðinlegt að sjá þig kveljast svona.

    Byrjum nú að fylla baukana af klinki og safna fyrir Ástralíu og Nýja-Sjálands ferð, Roadtrippi í USA og Tangókennslu í S-Ameríku. Jú og safaríferð til Afríku... verðum við ekki að sigra heiminn fyrst við erum byrjaðar á þessu? Bara kippa litlu með í þetta sinn og þá erum við góðar :)

    Takk fyrir æðislega tíma elsku Silja mín og takk allir fyrir að lesa og fylgjast með okkur.

    ReplyDelete
  2. Þið eruð æðislegar og það var ekkert smá gaman og gott að sjá ykkur á laugardagskvöldið. Takk fyrir að fá að ferðast með ykkur hér á blogginu:))Það er búið að vera mjög gaman að fylgjast með þessari ævintýra ferð ykkar:D Kv. Linda frænka;))

    ReplyDelete
  3. Velkomnar heim skvísur! Frábært að þú sért að hressast Silja :)

    Það er búið að vera mjög gaman að fylgjast með ykkur og þessu frábæra ævintýri ykkar!!

    Ég er farin að safna... ;)

    Takk fyrir mig!

    Knús :*

    ReplyDelete

Endilega skildu eftir fallegt komment handa okkur :)